Áburðarframleiðsla

fieldspexels-photo-259280Nú er svo hátt verð á innfluttum áburði að bjartsýnismenn vilja endurreisa áburðarframleiðslu með svipaðri aðferð og var í Gufunesi: Framleiða vetni í áburðinn með rafmagni sem er að vísu margfalt dýrara en að famleiða það úr metani (jarðgasi) eins og stórir áburðarframleiðendur gera. En ef stjórnvöld hér standa með innlendri framleiðslu getur viss aukakostnaður verið yfirstíganlegur í ljósi reynslunnar af óöryggi og dýrum innfluttum áburði.

Það má líka flytja inn jarðgas til framleiðslunnar sem til skamms tíma hefur verið auðaðgengilegt og ódýrt á alþjóðamörkuðum þó herferðin gegn jarðefnaeldsneyti hafi sett það í uppnám um sinn. Með eigin framleiðslu áburðar mundi landið verða minna háð tískustraumum og markaðssveiflum. En bæði kalíið og fosfórinn þarf að flytja inn svo áburðurinn verður áfram eitthavð háður duttlungum á mörkuðum.

Eitt af skammarstrikum íslenskra stjórnvalda á tímum einkavæðingar og EES-samningsins var að afhenda gæðingum og "fjárfestum" góð fyrirtæki í almannaeigu. Áburðarverksmiðjunni, Sementsverksmiðjunni og Kísilgúrverksmiðjunni var fórnað með ýmsum fölskum rökum um vond umhverfisáhrif og óhagkvæmni. Nú er komið í ljós að mikil mistök voru gerð.

Tilbúinn áburður hefur lengi verið skotspónn umhverfistískufrömuða en ljóst er orðið að ekkert getur komið í staðinn fyrir hann.

Áburðarverksmiðjan í Gufunesi var braskvædd og svo lokað, sögð hættuleg vegna mengunar, leka- og sprengihættu. Það var einföldun og ýkjur, það mátti hafa stjórn á hættunum og halda íbúðabyggð í fjarlægð. Að flytja verksmiðjuna var líka hægt, hún var nýleg að hluta.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Ég er mjög sáttur við að reist verði áburðarverksmiðja hér á Íslandi. Hefði samt kosið að sjá hana staðsetta nær aðal markaðnum hér, t.d. á Grundartanga. Ljóst er að ESB löndum hefur tekist að sigla orkustefnu sinni í strand og mun taka mörg ár að koma henni á flot aftur, ef það þá einhvertíma tekst. Kjarnorka er eina von ESB landa í dag, en leiðin til að flokka hana sem hreina orku gæti orðið torsótt og erfið og tekið tíma.

Því miður eru ekki líkur á að þeir sem að þessum hugmyndum um íslenska áburðarframleiðslu standa séu að hugsa um íslenska bændur. Mun frekar að þar sé horft til "stóra" markaðarins austan Atlantshafsála. Að staðsetningin sé valin af þeim sökum. Á þeim markaði þarf ekki endilega að spá í framleiðslukostnað. Jafnvel þó hann verði í hærri kantinum, að flytja þurfi áburðinn yfir hafið og arðsemi verksmiðjunnar verði sett í háan flokk eru mestar líkur á að verðið verði samt mun lægra en hægt verður að bjóða í orkusveltum ESB löndum.

En kannski munu einhverjir íslenskir frammámenn sjá sér hag í að þjóna íslenskum bændum og reisa aðra slíka verksmiðju, með innanlandsmarkað í forgangi.

Gunnar Heiðarsson, 16.1.2022 kl. 08:14

2 identicon

Takk fyrir þessa umræðu. Að sjálfsögðu á að framleiða áburð hérlendis og leita alla leiða til að gera framleiðsluna umhverfisvæna og hagkvæma. Frjálshyggjuöflin sem ráða hér ríkjum, og hafa gert áratugnum saman, virðast hafa það helst á stefnuskránni að eyðileggja alla innlenda framleiðslu og flytja allt inn sama hvað það er. Skiptir þá engu hvort auðvelt og hagkvæmt er að framleiða vöruna hérlendis eða ekki. Fyrir vikið er þjóðin algjörlega háð innflutningi á stórum hluta sinna neysluvara. Gjörsamlega óþolandi og ömurleg stefna enda stór ástæða fyrir því að jörðin er á hraðri leið í glötun vegna ofnýtingar og mengunar.

Hjalti Þórðarson (IP-tala skráð) 16.1.2022 kl. 09:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband