Að framselja fullveldið.
19.2.2022 | 10:39
Úr Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins 19. febrúar 2022
"Það er mikið áhyggjuefni að íslenskir stjórnmálamenn, óháð flokkum, hafi sætt sig við að verkefni þeirra hefur að mestu verið fært öðrum. Hörmungarstjórn Jóhönnu og Steingríms ætlaði sér að læða íslensku þjóðinni lemstraðri inn í ESB, af því að hjúin vissu að upprétt færi hún þangað aldrei.
En stjórnin rann á rassinn þegar hún horfði framan í íslenskan veruleika. En fram að því var búið að færa regluverk EES-samningsins að þessari inngöngu, í svokölluðum samningum, sem voru þó algjörlega einhliða leiðsögn búrókrata frá Brussel. Fyrst óyndisríkisstjórnin hrökklaðist frá með falleinkunn frá kjósendum í lágmarki, sem ekki hafði áður sést, þá bar að færa regluverkið aftur til þess sem það var, varðandi EES og reyndar allt verkferlið, sem utanríkisráðuneyti ESB við Rauðarárstíg hefur staðið í til þess að þurrka smám saman burt allan mun sem vera skal á milli samnings sem tryggði fullveldi þjóðar og hins vegar þess sem fleygði því á haugana.
Nú sjáum við betur hversu illa var staðið að orkupakkamálinu. Norðmenn súpa seyðið af slíku og reyndar Evrópa öll, þar sem orkuvandræðin vaxa hratt.
Orkukreppa Evrópu setur orkupakka á rétt ljós.
Formaður Sjálfstæðisflokksins gladdi flest flokkssystkini sín stórlega þegar hann lýsti því yfir, úr ræðustól Alþingis, sem óskiljanlegu rugli, ætluðu menn sér að samþykkja orkupakkamálið. Flokksmenn voru alls hugar fegnir, og uggðu því ekki að sér fyrir vikið, þegar ekkert reyndist að marka gleðiefnið. Þetta er eitt af þeim stjórnmálalegu undrum sem ekki hafa verið útskýrð. En það er þó ekki brýnast heldur hitt að snúa af þessari ólánsbraut og lagfæra það sem skemmt var í fullkomnu heimildarleysi af óheilu undirmálsliði."
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.