Að endurtaka mistök
8.5.2025 | 13:14
Bankar þjóðarinnar voru afhentir bröskurum, einkavæddir á lygamáli, sá fyrsti, Útvegsbankinn (eldgamli Íslandsbanki), fyrir 35 árum, Landsbankinn og Búnaðarbankinn fyrir 25 árum. Góðir fjárfestingasjóðir lentu líka hjá bröskurum, s.s. Fiskveiðasjóður og aðrir lánasjóðir atvinnuveganna. Þeir höfðu fjármagnað uppbyggingu Íslands úr örbirgð í velsæld eins og í lygasögu.
Afsökun þáverandi stjórnvalda landsins var að "ríkið ætti ekki að vasast í rekstri", frægt heimskuraus nýfrjálshyggjupostula (sumir bestu bankar heims eru í ríkiseigu). Og endirinn á einkavæðingunni varð eins og vænta mátti að íslenska ríkið fékk bankana í fangið haustið 2008 þegar þeir höfðu spilað rassinn úr buxunum og verið settir á hausinn.
Bankar eru löggild gróðafyrirtæki, skylt að ávaxta pund innistæðueigenda. En í framkvæmd, eins og reynslan 2008 sýndi, eru einkabankarnir á ábyrgð ríkisins sem fær hræin í fangið þegar hluthafarnir og vildarvinirnir eru búnir að naga allt innan úr þeim.
Íslenskir ráðamenn hafa ekki enn þroskast upp úr bábiljum nýfrjálshyggjunnar, þeir ætla nú að "selja" Íslandsbanka. https://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2025/05/08/timasetning_solunnar_fin/ Hann á verða hreinn hlutafélagabanki sem er þó orðið nóg af í landinu nú þegar.
Þetta eru endurtekin aldafjórðungsgömul mistök.
Ríkið á auðvitað að leggja Íslandsbankahlutinn inn í Landsbankann sem á að vera 100% þjóðarbanki og stór til þess að keppa við vaxandi kraðak af einkabönkum og fjármálfyrirtækjum og geta skilað ríkissjóði alvöru arði.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:44 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning