EES-útboð, EES-ok
16.9.2024 | 12:08
Ein af verstu kvöðunum sem EES-samningurinn kom á var um að verk skyldi bjóða út á EES-svæðinu sem þýðir í raun öllu ESB ef verkin ná tiltekinni stærð. Þetta hefur leitt til ýmissa vandræða. Nú býður Orkuveitan út 18 milljarða verkefni á EES-svæðinu.
Svona útboð eru ekki í samræmi við hagsmuni þjóðarinnar. Íslensk fyrirtæki geta séð um þetta, hvort sem er sjálf eða með þátttöku þeirra sem þau velja sér til samstarfs. Færni og þekkingu á þessu sviði þarf að halda í landinu og byggja frekar upp en ekki fá fjarlæg fyrirtæki í verkin.
Það þarf ekki að vera með æsing út af orkuskorti vegna "orkuskipta" yfir í rafmagn, það liggur ekkert á. "Orkuskiptin" eru byggð á fölsunum en koma að því marki sem þau borga sig með tímanum og þróun tækninnar. Niðurgreiðslur til að koma þjóðinni á rafbíla eru bæði dýrar og hættulegar og taka raforku frá atvinnutækjum landsins. Rafbílavæðingunni þarf að hagræða með því að hætta niðurgreiðslunum. Og taka tíma í að byggja frekar upp nýtingu jarðvarmans til raforkuframleiðslu fyrir fyrirtæki og heimili landsins, bensín og díselolía verða alltaf besti, hagkvæmasti og vistvænsti orkugjafinn fyrir bílana.
Svona verkefni, eins og okkar almannafyrirtæki Orkuveitan ætlar að ráðast í, á auðvita að bjóða út í minni þáttum hér meðal íslenskra verktaka. Þeir eiga að fá verkefnin og eftir þörfum að byggja sig upp og leita samstarfs til að ráða við þau. Það liggur ekkert á þegar mesta auðlind landsins er annars vegar. Orkufyrirtækin eiga ekki að fá að bjóða fjarlægum aðilum að óþörfu til að ná í jarðhita Íslands heldur standa með og byggja upp íslensk fyrirtæki í jarðvarmageiranum. (Mbl 16.9.2024)
Meginflokkur: Evrópumál | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:30 | Facebook
Athugasemdir
Ísland var búið að klára fyrstu orkuskiptin á undan öllum öðrum þjóðum með jarðhitaveituvæðingu. Ef þetta væri kapphlaup værum við búin að hringa alla andstæðingana. Í þeirri stöðu er maður ekki á eftir neinum þó það kunni að líta þannig út á kyrrmynd af hlaupabrautinni.
Guðmundur Ásgeirsson, 16.9.2024 kl. 22:09
EES-samningurinn er orðinn að algjörri martröð sem við þurfum að vakna upp af sem fyrst.
Júlíus Valsson, 16.9.2024 kl. 22:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.