ESB krefst þess að orkufyrirtækjum í ESB/EES sé veittur aðgangur að íslenskum ám og jarðvarmasvæðum til jafns við íslensk almannafyrirtæki, bæði við byggingu nýrra virkjana og reglulega endurnýjun nýtingarleyfis núverandi virkjana. Ef Ísland hlýðir þessu þýðir það að orkulindir Íslands komast smám saman á forræði stórra erlendra fyrirtækja. Íslensk stjórnvöld hafa ekki treyst sér til að taka af skarið en eru í bréfaskriftum við eftirlitsskrifstofu EES (ESA) um málið.
Úthlutun á nýtingarrétti orkuauðlinda á samkvæmt ESB á að gera i opnu valferli þar sem jafnræðis sé gætt milli fjárfesta í ESB/EES og á grundvelli hlutlægra skilyrða fyrir vali á nýtingarleyfishafa. Tryggja skal að nýtingartími sé ekki lengri en þörf krefur fyrir virkjunaraðila að fá fjárfestingu til baka ásamt hæfilegum arði af fjárfestingunni. Ekki má veita rétthafa forgang til endurnýjunar að þeim tíma liðnum.
Orkufyrirtæki ESB/EES eiga samkvæmt þessu að fá samskonar aðgang að orkuauðlindum landsins, fallvötnum og jarðhitasvæðum, og fyrirtæki í almannaeigu ríkis og sveitarfélaga hafa hingað til fengið, og við fyrirskipaða endurnýjun nýtingarleyfanna fá ESB-fjárfestar tækifæri til að leggja undir sig orkuauðlindir sem nú eru nýttar af fyrirtækjum í almannaeigu.
ESA fyrirskipar stjórnvöldum Íslands að breyta landslögum: Skrifstofan komst að þeirri niðurstöðu að íslensk löggjöf um veitingu virkjanaleyfa fyrir vatnsafls- og jarðvarmavirkjanir brjóti EES-lög (sjá mál ESA no. 69674 og bréf frá maí 2015 og feb. 2012)
Lög um nýtingarrétt orkuauðlinda ætlaði ríkisstjórnin að leggja fram vorið 2020. (Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum er varða nýtingu orkuauðlinda á opinberu forræði (nýtingarleyfi) vegna aðvörunar ESA). Frjálst land spurðist fyrir um hvort stefnan væri að veita ESB-fyrirtækjum sama aðgang að auðlindunum og íslenskum almannafyrirtækjum.
Svar forsætisráðuneytisins (2.4.2020) var að Við skoðun málsins hafa komið upp rökstuddar efasemdir um að þjónustutilskipunin eigi við um raforkuframleiðslu. Íslensk stjórnvöld hafa því ákveðið að fresta fyrirhuguðum lagabreytingum uns betri vissa er fengin fyrir því hvaða þjóðréttarlegu skuldbindingar hvíla á íslenska ríkinu að þessu leyti. Frumvarpið sem vísað er til í þingmálaskrá verður því ekki lagt fram á Alþingi á þessum vetri.
Frjálst land sendi aðra fyrirspurn 16.3.2021 um hvort fengist hefði einhver vissa fyrir hvort Íslandi sé skylt samkvæmt EES/ESB-valdboðum að heimila ESB/EES-aðilum afnotarétt af orkuauðlindum landsins?
Svar forsætisráðuneytisins kom 14.4.2021: -komu stjórnvöld efasemdum sínum formlega á framfæri við Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) síðastliðið sumar og vísuðu meðal annars til nýlegs dóms Evrópudómstólsins varðandi túlkun á þjónustutilskipuninni (dómur í máli Eco-Wind frá 28. maí 2020). Ekki hafa enn borist formleg viðbrögð frá Eftirlitsstofnun EFTA .
(Vald Evrópudómstólsins (ESB-dómstólsins) á ekki að ná til Íslands en það er og hefur verið brotið í tengslum við EES)
Noregur hefur tekið af skarið og hafnað fyrirmælum ESA og heldur orkulindum á innlendu forræði í Noregi. https://www.frjalstland.is/wp-content/uploads/2021/04/190604-Svar-fra-dept-til-esa.pdf
Þann 16.2.2021 lagði Fjármálaráðherra fram: Frumvarp til laga um nýtingu á landi í eigu ríkisins í atvinnuskyni.
Þar segir m.a. í greinagerð:"Þannig liggur fyrir að nýta þarf land undir vindmyllur og mannvirki vegna annarrar orkunýtingar, t.d. stöðvarhús, stíflur, varnargarða o.fl. Lagt er til að frumvarpið gildi ekki um ráðstöfun landsvæðis undir mannvirki sem þessi. Þar sem tekið er fram að nýting landsins verði að vera í nánum tengslum við nýtingu réttindanna verður að skýra undanþáguna þröngt og má ekki ganga lengra við ráðstöfun landsins en nauðsynlegt er til að tryggja nýtingu auðlindarinnar. Þá skal tekið fram að þótt frumvarpið nái ekki til ráðstöfunar á þessum auðlindum er ekkert því til fyrirstöðu að ríkisaðilar beiti ákvæðum frumvarpsins, eða hafi þau í öllu falli til hliðsjónar, við slíkar ráðstafanir sem fara fram á grundvelli annarra laga."
Í umsögn Landsvirkjunar um frumvarpið hvetur Landsvirkjun til þes að fjárlaganefnd taki af allan vafa í nefndaráliti um að umrædd löggjöf gildi ekki um vatnsréttindi, jarðhitaréttindi, réttindi til nýtingar vindorku eða landréttindi þessu tengt og skuli ekki beitt um slík réttindi.
Af þessu öllu má sjá að sótt er að orkulindum Íslands og almenningur verður að vera á verði því hagsmunir komandi kynslóða eru í húfi. Almenningur verður að þrýsta á stjórnmálamenn að bregðast ekki þó þeir hafi sýnt af sér mikla linkind í samskiptum við ESB og upptöku laga sem grafa undan yfirráðum Íslendinga á sínum orkuauðlindum.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Samgöngur, Stjórnmál og samfélag, Evrópumál | Breytt 3.6.2021 kl. 18:48 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.