Blýfast
11.9.2020 | 16:46
Nýsköpun og atvinnufjárfestingar standa nú blýfastar í reglufargani frá ESB. Uppbyggingin, hvort sem er að nýta kalkþörungasand af sjávarbotni, koma upp virkjunum og iðnaði eða ala fisk, er föst í leyfisveitingakerfum. Ástæðan er aðallega að Ísland hefur tekið upp regluverk frá hinu staðnaða Evrópusambandi. Eftirlitsstofnanir þjóðarinnar hafa þurft að loka landið inni í síbólgnandi skriffinnskureglum ESB/EES.
Sveitarfélögin eru líka að kikna undan EES. Þau ráða ekki við flækjustigið (sjá til dæmis reglugerð 550/2018 sem er sparðatíningur á 66 blaðsíðum sem á ekki við hérlendis). Sveitarfélögin, Samtök iðnaðarins og fleiri hafa mótmælt reglufarganinu formlega. En allt samráð er hunsað þegar EES-tilskipanir eru annars vegar. Þeim er þröngvað á landið. Stöðnunin sleppir ekki takinu fyrr en Ísland er laust úr EES.
Athugasemdir
Íslensk sveitarfélög í Evrópusambandinu:
Rúmlega þriðjungi af fjárlögum Evrópusambandsins, um 347 milljörðum evra, var varið til byggðamála á árunum 2007-2013.
Byggðaþróunarsjóður.
Sjóðnum er ætlað að jafna stöðu einstakra svæða. Áhersla er til dæmis lögð á nýsköpun í þekkingariðnaði og rannsóknum, umhverfismál og samgöngur en sérstök áhersla er lögð á dreifbyggð svæði og erfið.
Samstöðusjóður.
Sjóðnum er ætlað að styrkja ríki sem verða fyrir verulegu tjóni af völdum náttúruhamfara, til dæmis veðurs.
Aðlögunarsjóður.
Sjóðnum er ætlað að styrkja væntanleg aðildarríki og veita þeim aðstoð við að undirbúa og uppfylla ýmis nauðsynleg skilyrði fyrir inngöngu í Evrópusambandið.
Félagsmálasjóður.
Sjóðnum er ætlað að jafna félags- og fjárhagslega stöðu íbúa í álfunni. Áhersla er lögð á ýmiss konar menntun og að styrkja stöðu hópa sem eiga undir högg að sækja, til dæmis innflytjenda, fatlaðra, ungs og gamals fólks á vinnumarkaði.
Landbúnaðarsjóður.
Sjóðurinn skiptist í tvennt, annars vegar er um að ræða styrki til bænda og hins vegar styrki til dreifðra byggða.
Styrkir til sjávarbyggða.
Evrópusambandið veitir styrki til sjávarbyggða úr sjóði sem heitir European Fisheries Fund og stuðningurinn byggir á fjórum stoðum:
Aðlögun flotans.
Fiskeldi, vistvænar veiðar, vöruþróun og markaðssetning.
Veiðistjórnun og öryggismál.
Stuðningur við byggðir sem eru að verulegu leyti háðar fiskveiðum og til að stuðla þar að fjölbreyttari atvinnuvegum.
Íslensk sveitarfélög í Evrópusambandinu
Þorsteinn Briem, 12.9.2020 kl. 09:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.