Norðmenn komnir í hár saman út af Íslandi
14.4.2018 | 15:18
Norskir frændur vorir rífast nú um afleiðingar EES-tilskipana um orkukerfið og meintar þvingunartilraunir norsku ríkisstjórnarinnar gegn Íslandi.
(Mynd: Víkingar, Fjord Norway, Örjan Iversen)
Norskir stjórnmálamenn virðast vera hræddari við fransk-þýska stórríkið (ESB) en þeir íslensku, kannske af biturri reynslu. Haft er eftir forsætisráðherra Noregs að orkustjórnvald ESB (ACER) muni ekki gegna mikilvægu hlutverki á Íslandi og sagt að ráðherran hafi látið að því liggja að Ísland muni þess vegna samþykkja orkutilskipanirnar eins og Noregur hefur þegar gert. Öll EES lönd þurfa að samþykkja. Norsku samtökin Nei til EU óttast nú að norska ríkisstjórnin sé að reyna að þvinga Ísland til að samþykkja ACER í staðinn fyrir að sýna Íslandi virðingu.
Einhverjir starfsmenn utanríkisráðuneytis okkar hafa líka látið hafa eftir sér að ACER muni hafa lítil áhrif hérlendis. Það gefur ranga mynd af afleiðingum tilskipananna.
Það sem gerist ef Alþingi samþykkir EES-tilskipanirnar um orkukerfið er að íslensk stjórnvöld afsala sér völdum yfir orkuflutningskerfi Íslands og færa yfirstjórn þess til ESB.
Orkuskrifstofa ESB (ACER) stofnar þá umboðsskrifstofu hér sem við þurfum að kosta með okkar skattfé þó hún lúti ekki okkar stjórn. ESB fær þannig framkvæmdavald yfir íslenska orkugeiranum, þ.e. reglusetningarvald um orkuflutningskerfið, m.a. um tæknimál og viðskiptamál, og þar með vald um nýtingu auðlinda landsins. Sú valdstjórn eykur einnig kostnað og skriffinnsku svo orkureikningarnir hækka. Þegar eru um 500 blaðsíðna fyrirskriftir komnar út og von á 1000 frá ACER. Eins og reynslan sýnir mun ESB síðan teygja sig lengra og taka meiri völd yfir orkumálunum með tímanum. Samkvæmt upprunalega EES-samningnum voru orkumálin ekki með en ESB hefur nú náð þeim undir EES. Reyndar fengum við fyrirvara sem er kannske hægt að nýta.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.