Ógnin við Ísland
29.3.2025 | 21:20
Þátttaka Íslands í hernaði gegn öðrum þjóðum er stærsta ógnin við öryggi landsins. Núverandi stjórnvöld skilja greinilega ekki einföldustu lögmál um öryggi þjóða: Aðild að stríði leiðir af sér ófyrirséð óvinveitt viðbrögð þeirra sem tengjast eða hafa samúð með þeim sem hernaðurinn er gegn.
Stofnanir Íslands, t.d. í utanríkismálum og almannavörum, halda mikla fundi og syngja barnslegan kór um að þurfi að "efla varnir" og slá um sig með fullyrðingum um óvinveitt öfl, undantekningalítið óhróður eða tilbúnar sögusagnir.
Þegar íslenskar stjórnvaldsstofnanir eru farnar að ásaka Kína, Rússland eða Íran um njósnir, skemmdarverk eða annan fjandskap eru þeir sem eiga að vera fulltrúar Íslands að efna til óvildar við vinaþjóðir eða þjóðir sem Ísland á ekkert sökótt við, byggt á rógi eða óstaðfestum sögusögnum. Ásakanirnar hafa yfirleitt ekki sannast (nema þegar Bandaríkin og Noregur skemmdu gasleiðslu Rússa í Eystrasalti) en oft hefur verið hægt að hrekja þær. Mikið af rógburðinum á uppruna sinn í Bretlandi.
Það er ekki skrítið að Kínverjar, Rússar, Íranir njósni um her Bretlands, Bandaríkjanna eða Frakklands sem hóta þeim stöðugt og reka jafnvel hernað gegn þeim. Þessi stríðslönd geta sjálf þefað uppi njósnara hjá sér, Ísland á lítið af hernaðarleyndarmálum sem njósnarar ágirnast. Þeir sem eru að reyna að æsa Íslendinga til "aukinna varna" eru annaðhvort loddarar eða launaðir stríðsmangarar.
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 21:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)