Færsluflokkur: Fjármál
Á ESB að ráða hvaða gjaldeyrisbraskarar koma?
6.4.2018 | 11:52
Það hefur verið alsannleikur um skeið að ekki megi stjórna fjármagnsflutningum milli landa: Það þurfi að afnema gjaldeyrishöft. Við vitum hvernig það getur virkað: Afnám gjaldeyrishafta með EES-fjórfrelsinu endaði 8. október 2008 með því að landið var orðið fullt af lánsgjaldeyri og þurfti að loka hann inni með neyðarlögum sem eru í gildi ennþá.
En nú treystir Seðlabankinn sér ekki til að stjórna fjármagnsflutningunum lengur og vill
"---stíga frekari skref í afnámi hafta til að losna undan núverandi undanþágum alþjóðasamninga um óheftar fjármagnshreyfingar bæði gagnvart EES og OECD---" (úr Morgunblaðsfrétt 6.4.2018)
(EES-samningurinn er enginn alþjóða samningur nema í lögfræðilegum hártogunum heldur eingöngu við lönd ESB, OECD eru frjáls alþjóðasamtök en valdalaus).
Það er auðvitað ekki nein glóra í að afnema stjórn Seðlabankans á flutningi eignafjármagns inn og út úr landinu. Ísland getur ekki lotið peningamálareglum EES/ESB sem miðast við mjög stórt gjaldmiðilssvæði. Það er orðið viðurkennt meðal sérfræðinga í peningamálastjórn að minni gjaldmiðilssvæði verða að hafa stjórn á inn- og útflæði fjármagns, þ. e. gjaldeyrshöft eftir þörfum (átt er við stjórn á millilandaflutningum eigna en ekki á greiðslur í venjulegum viðskiptum). Reyndar er það svo að stærri gjaldmiðislvæði gera þetta líka eftir þörfum þó við viljum vera katólskari en páfinn.
Að Ísland þurfi undanþágur frá EES-samningnum til að stjórna peningamálum landsins er hættulegt og ekki boðlegt. Fjórfrelsiskreddur EES-samningsins þarf að fella úr gildi hér sem fyrst svo Seðlabankinn geti í friði stjórnað peningamálunum eftir hagsmunum landsins. Hann getur það eins og er í skjóli neyðarlaganna (2008 og afleiddra ákvæða) og engin ástæða til að afnema þau fyrr en kreddurnar hafa verði felldar úr gildi. "Undanþágur" (þær eru frá hinum alræmda EFTA-dómstól) gætu fallið niður en það er ekki orðið enn og ekki víst að Seðlabankinn þurfi að hlíta því þegar sá tími kemur.
Eða vantar okkur kannske gjaldeyrisbraskara með fulla poka (eða snjóhengju?) af gjaldeyri inn í landið? Lífeyrissjóðirnir okkar fá nú að bauka með lífeyri frá okkur í útlöndum eins og fyrir hrun, í stað þess að setja hann í fjárfesingar í landinu, kannske veitir ekkert af nýrri snjóhengju?
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)