Ráðherrar fresta,- til hvers?

Frestun á afgreiðslu 3 orkupakkans er gálgafrestur. Það er búið að draga fram mikla ókosti hans, en alls ekki alla. Innihald hans er um samtengingu orkukerfa í Evrópu, sem snertir okkur alls ekkert. Hvaða gagn er af því að fleiri lögfræðingar teygi lopann fyrir stjórnvöld. Einungis er tvennt í stöðunni:

1. Fá ESB til að fallast á að þessi tilskipun eigi ekki við Íslands, alveg eins og margar tilskipanir um járnbrautir ofl. sem hafa fallið undir fjórfrelsið en ekki verið innleiddar hér á landi.

Það er hins vegar erfitt fyrir utanríkisráðherra að fara til baka með málið eftir að hafa látið undan þrýstingi norðmanna og samþykkt upptöku pakkans 18. maí 2017 í EES nefndinni. En ómöguleiki þess að láta stjórn íslenskra orkuauðlinda undir erlent vald, og hætta á að framtíðarnýting þeirra verði ekki fyrir innlenda atvinnustarfssemi, eru nægar ástæður til að snúa ofan af þessu máli.

2 Hafna þessum orkupakka og taka slaginn eins og norðmenn gerðu gagnvart Pósttilskipuninni, ekki fóru íslenskir ráðherrar til Noregs til að þrýsta á samþykkt, né var um að ræða "allir fyrir einn og einn fyrir alla" um samþykkt í því tilfelli. 

En kannski er það rétt sem Sigurður Líndal og Skúli Magnússon segja í bók sinni " Réttarkerfi Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins" sem kom út 2011:

...."Af framangreindu sést glöggt að rétturinn til að synja laganýmælum ESB á þeim sviðum sem EES -samningurinn nær til er vissulega fyrir hendi frá formlegu sjónarhorni. Frá pólitísku sjónarhorni er hann þó vart fyrir hendi, a.m.k.svo framarlega sem stjórnvöld EFTA-ríkjanna vilja halda í EES-samninginn. Hins vegar má líta á heimildir EFTA-ríkjanna eins og neyðarhemill sem til greina kæmi að nota við sérstakar aðstæður."

Ef þetta er rétt mat á ríkjandi pólitísku viðhorfi til samningsins og framkvæmd hans heldur áfram með þessum hætti, þ.e. að ESB ráði hvaða lög gildi á Íslandi og Alþingi og stjórnvöld samþykki það þegjandi og hljóðalaust, þarf að hefja baráttu fyrir uppsögn EES-samningsins áður en landið verður innlimað inn í ESB án þess að þjóðin sé spurð.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband